12. águst, 2005

Óvænt!!! Mér hafði liðið hálf furðulega í svolítinn tíma, og við ákváðum að taka prufu, bara til að vera viss!! Og hvað gerðist:
JÁKVÆTT!!

Lífið kann sannarlega að koma manni á óvart!! Eftir vesenið sem var á okkur að verða ófrísk að Matthíasi, hélt ég ekki að annað kraftaverk myndi hreinlega bara hoppa inn í lífið okkar!!  Aðeins fyrr en áætlað en afskaplega velkomið!!

14. águst, 2005

Við fórum á sjúkrahúsið í dag, til að fá lyf sem ég þarf til að halda uppi gulbúunum hjá mér..... og við lentum hjá indæla lækninum sem hjálpaði við fæðinguna hans Matthíasar fyrir rúmlega ári. Það var gaman að sjá hana aftur. Við fengum lyfseðilinn og mér leið strax betur að hafa lyfin og hún var líka svo sæt að taka okkur í sónar. Og þarna var litla krílið, enn svo pínupons að það var varla neitt að sjá, en allt komið sem átti að vera og allt leit vel út. Við vorum svo ánægð. Christain og Mattihas voru með mér og Christian var rosa hrifinn - Matthias var meira að spá í af hverju sjónvarpið var svona lítið og svart hvítt, held ég =)

18. ágúst, 2005, vika 6+1

Fyrsti tíminn hjá lækninum var í dag og aftur voru blóðprufur, spurningar og vigtun á prógramminu............  Christian og Matthías komu aftur með því það var tími til að sækja Matthías frá dagmömmunni hvort sem var. Læknirinn var ofsa indæll eins og alltaf og allt leit rosa vel út. Litla hjartað pumpaðig og pumpaði og allt eins og það átti að vera. Ég á að taka utrogest fram að 13.-14. viku, bara til að vera viss!!

25. ágúst, 2005, vika 7 + 1

Allt í allt líður mér ofsalega vel, en stundum (eins og í morgun) er ég lasin og mig svimar og þarf að leggja mig aðeins. Ekki það allra besta, af því ég þarf að læra en stundum er það bara svona. Yfirhöfuð líður mér mun betur en á sama tíma með Matthías, kannski af því ég hef ekki tíma til annars =)
 

30. ágúst, 2005, vika 7 + 6

Ótrúlegt - 3. mánuðurinn byrjar á morgun!

2. september, 2005, vika 8 + 2

Átti tíma hjá lækninum í gær, klukkan 15.30. Við Matthías þurfum að bíða nokkuð lengi, því það voru greinilega einhver flókin mál í gangi, en Matthias var rosa duglegur og góður! Allt er í rosa fínu lagi, litla krílið vex og dafnar alveg á áætlun! ;) Fór aftur í sónar, sem var mjög gaman, við fengum að sjá litlu hand- og fótleggina! Var svolítið fyndið, því það er meira "pláss" orðið í kviðnum á mér og ég ýtti á, svo við gætum séð almennilega. =) Matthías var aftur voða spenntur fyrir skjánum..... og honum finnst lítil börn ofsalega spennandi, svo ég vona að hann verði hrifinn þegarlitla krílið kemur.
Ég er stundum voða þreytt, en það er sennilega líka út af hitabylgjunni sem er hérna eins og er!

16. september, 2005, vika 10 + 2

Átti tíma og fór í 3. sónarinn í gær og allt er í bestasta lagi =)
Litla krílið vex og vex, er orðið 33 mm frá hvirfli til rass. En var steinsofandi........ og lét sko ekki trufla sig!! Mér fannst það svolítið sniðugt, þar sem Matthías var alltaf á fullri ferð þegar ég fór í sónar, jafnvel á þessum tíma!
 

28. september, 2005, vika 12 + 0

Loksins, loksins! Fyrstu hættulegu 3 mánuðirnir eru búnir, og það áður en prófin byrja (1. prófið er á þriðjudaginn kemur)........... mikið er ég fegin!!  Mér líður bara rosa vel, hef sloppið mjög vel með ógleði og þreytu...... verð sennilega alveg búin eftir prófin, en þetta reddast allt!!

29. september, 2005, vika 12 + 1

Fórum aftur í tíma í dag, ég vildi fá að fara einu sinni enn fyrir próf, bara til að vera viss um að allt er í lagi...........  Mér líður rosa vel og var bara sagt að halda áfram að gera það sem ég hefði hingað til gert, hvað sem það væri, fyrst það virkaði svona vel! =)
Krílið lítur vel út, læknirinn tók góðan tíma í sónarinn, þar sem lítið var um að vera........ Tókum sónar í gegnum kviðinn núna, svo lífbeinið var svolítið fyrir, en samt sást allt rosa vel. Krílið var á fleygiferð, sparkandi og sjúgandi puttann....... algjört krútt!!  Christian kom aftur með núna og fannst rosa gaman að kíkja, eftir að hafa misst af síðustu tveimur..... hann missti alveg af þessum tíma hjá Matthiasi, af því hann var í Speyer, svo kannski var þetta extra mikils virði fyrir hann =)

14. október, 2005, vika 14 + 2

Litla krílið leyfði mér að finna fyrir sér í fyrsta skipti í gærkvöldi!! Bara pínulítið.......... en svooooooooooo yndislegt!!

20. október 2005, vika 15 + 1

Prófin eru loksins búin og ég er svo þreytt að það er ekki fyndið einu sinni!! Steinsofna yfirleitt þegar ég set Matthias að sofna........
Áttum aftur tíma í dag og allt var í fínasta fínu, sem betur fer, eftir allt stressið og áreynsluna síðustu daga!!  Krílið var svo fyndið - alltaf að flýja undan sónarnum... um leið og læknirinn færði tækið hentist krílið í burtu! =)
Mér líður rosa vel og krílið er orðið 9,9 cm frá hvirfli að rassi!! Vex og dafnar alveg ofsalega vel!

27. október, 2005, vika 16 + 1

Erum núna í 5. mánuðinum!! Og í gærkvöldi "svaraði" litla krílið í fyrsta skipti!! Ég lá uppi í rúmi og var að hugsa til litla krílisins og allt í einu fann ég pínu spark.... svo ég lagði höndina þar sem sparkið hafði verið og stuttu seinna komu nokkur spörk í röð í hendina á mér........... *bráðna* Þetta er alveg yndislegt!! Auðvitað finn ég enn ekki oft fyrir hreyfingum, aðallega þá á kvöldin, þegar ég er komin í ró.
Og ég stóðst ekki freystinguna og keypti fyrstu fötin í gær - ofsalega sætan galla með "baby-bangsímon"........ hann er drappaður, svo sama hvort kynið kemur! =) Var rosa gaman að kaupa smá.... og geta loksins notið þess að bíða eftir krílinu, þar sem prófastressið er loksins búið!

8. nóvember, 2005, vika 17 + 6

Áttum tíma aftur í dag, eftir að hafa farið í stutt frí á bóndabýli í síðustu viku, sem gerði okkur öllum rosalega gott!! Litla krílið er orðið rúmlega 12 cm frá hvirfli niður að rassi og var rosa hresst!  Læknirinn hafði aftur vel tíma fyrir mig, svo sónarinn var lengi og við gátum skoðað allt vel - magann, blöðruna, o.s.frv! Og krílið var svo sætt, sparkandi, veifandi og aftur á fleygiferð og alltaf að stríða!! =)

29. nóvember, 2005, vika 20 + 6

Í dag var aftur tími hjá lækninum og allt var skoðað og mælt í bak og fyrir, litla krílið vex og vex og er orðið rúmlega 15 cm frá haus niður að rassi og alveg á fleygiferð! Allt er eins og það á að vera og ég er hress líka. Reyndar kíktum við á leghálsinn í dag, þar sem ég hef verið með sterka magaverki stundum..... enn er allt í fínu en ég á ekki endilega að skófla snjó og svoleiðis............
Frá og með janúar fáum við svo rosa flottar sónarmyndir, læknirinn minn  ætlar að gefa sjálfum sér nýtt sónartæki í jólagjöf. Það er þá svona 3D!! Verður rosa spennandi, ég hef heyrt svo skemmtilega hluti af þessum tækjum!
Annars er bara allt rosa fínt af okkur að frétta, ég er farin að finna fyrir hellings hreyfingum, síðustu daga hef ég m.a.s. stundum fundið fyrir hiksta!! Krílið er enn á fullri ferð út um allt, í morgun var það þvert yfir, en það á eftir að breytast aftur!
Æ, þetta er svo yndislegt allt saman!
Svo koma oft svör núna ef ég ligg og strýk kúluna........ þá er sparkað beint í hendina!

18. desember 2005, vika 23 + 5

Mikið er maður nú slakur að skrifa!! Sem er kannski ágætt, því héðan er ekkert nema bara gott að frétta og allt gengur eins og í sögu! =) Krílið vex og dafnar greinilega og það er alltaf að koma meiri kraftur í spörkin sem mömmu eru send. Svo mikill m.a.s. að pabbi fékk aðeins að finna fyrir hreyfingu núna um helgina í fyrsta skipti! Það voru svo mikil læti þarna inni að ég sagði honum að drífa sig til mín - hafði svona á tilfinningunni að það gæti gengið..... Og viti menn, svaka spark beint í hendina! Hann fann bara þetta eina, þó krílið væri á ferð og flugi, en það breytti alveg helling fyrir hann!!
Svo er farið að vera ofsalega gaman að þessu núna, í fyrrakvöld var krílið í rosalegu stuði og það var helst eins og það væri að reyna að kitla mig! =) Eða dansa, það kannski passar betur! Allavega "trítlaði" það alltaf smá þar sem hendin á mér var.......... og er greinilega mikið á ferð á kvöldin......
Er núna búin að skrá mig hjá ljósunum - og fer aftur í undirbúning, það er þó smá leikfimi og slökun og svoleiðis þar. Verður á mánudagskvöldum, svo ekki mikið vesen. Fer svo frekar bara sjálf í sund, kúrsinn er of dýr...........
Setti upp nýjar kúlumyndir sem þú getur kíkt á ef þú vilt! =)
Eigum tíma hjá lækninum aftur á miðvikudaginn svo ég skrifa aftur þá!

21. desember, 2005, vika 24 + 0

Átti tíma hjá lækninum aftur í dag. Allt í fínasta fínu hjá mér, blóðþrýstingurinn fínn og allt í besta lagi. Það var aftur tekin blóðprufa til að tékka á hvort er ekki örugglega allt í lagi, þar sem ég er blóðflokkur A-
Við fengum svo fullt af tíma hjá lækninum í sónar, hann tók sér vel tíma til að tékka allt, hjartað, magann, lifrina, nýrun, blöðruna o.s.frv.  Hann m.a.s. taldi fingur og tær, af því við náðum öllu svo vel inn á. Við fengum alveg ofsalega sæta mynd, tekna á hlið á höfðinu, svona "profile", þú getur kíkt á hana undir sónarmyndunum. =) Litla krílið var held ég hálfsofandi, en opnaði og lokaði munninum og tuggði smá........ Og mikið er gott að vita að allt er í svona góðu lagi!! Stærð og þyngd eru alveg á réttum tíma, er núna ca. 558 grömm (sagði sónarinn).
Matthías var alveg ofsalega góður allan tímann og mikið spenntur fyrir litla systkininu á skjánum!!

5. janúar, 2005, vika 26 + 1

Gleðilegt ár öll sömul!
Mér finnst alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, strax komið nýtt ár og litla krílið kemur til okkar eftir ca. 3 1/2 mánuð!!
Það gengur allt bara ofsalega vel, krílið vex og dafnar og er orðið rosalega sterkt, pabbinn farinn að finna miklu meira fyrir hreyfingum, þegar hann kemur og strýkur mallann. Svo er Matthías farinn að vera rosa spenntur, hann er yfirhöfuð ofsalega hrifinn af smábörnum og er alltaf mjög spenntur ef hann sér myndir eða eitthvað í sjónvarpinu! Svo er hann farinn að vilja alltaf hjálpa mér að bera krem eða olíu á mallann og eins bendir hann á bumbuna ef ég spyr hvar litla systkinið er =) Í gær var hann að strjúka bumbuna og þá sparkaði litla krilið í hendina á honum........ og hann eins og kreisti rosa létt á móti........ Yndislegt alveg!!  Ég vona svo innilega að allt gangi vel, við erum þegar búin að ákveða að Christian komi með hann alveg einan fyrst á sjúkrahúsið og svo ætlum við að reyna að finna rólegt horn einhvers staðar svo hann geti kynnst litla krílinu og viti að það tilheyrir okkur!!

3. Febrúar 2006, vika 30 + 2

Hef verið slök að skrifa, en það hefur verið mikið um að vera og ég hef verið lasin. Var með leiðindaflensu núna í vikunni og lá alveg flöt og í síðustu viku var bara ástand á mér. Fór að fá svo sterka verki á sunnudagskvöldinu, sérstaklega í vinstri mjöðmina og niður í fótlegg. Og fannst ég hafa nokkuð miklar æfingahríðir. Allavega gat ég næstum ekkert sofið þá nóttina og leið illa allan mánudaginn, svo ég fór til læknisins á þriðjudeginum og var sett í monitor og þá kom í ljós að ég var með léttar hríðir á nokkurra mínútna fresti. Svo hann skoðaði leghálsinn og hann hafði styst aðeins, ca. 3,5 centimetrar og við sáum að krílið var enn sitjandi. Læknirinn sagði að vel gæti verið að litla krílið væri að reyna að snúa sér og þess vegna væri svona stress í gangi, var allavega send heim með extra skammta af magnesium og sagt að liggja mikið og ekki lyfta miklu. Miðvikudagurinn var alveg rosalegur, fékk stundum sterka verki, en svo á fimmtudeginum kom bréf með einkunnunum mínum frá prófunum í október og ég náði og það vel!!!! =) Seinni partinn á fimmtudaginn leið mér allt í einu betur og þegar ég fór í tékk á föstudeginum voru engar hríðir lengur, svo læknirinn kíkti og sagði "sko, hausinn kominn niður!" Loksins, loksins!! Greinilega tekist þegar ég slakaði á eftir að fá að vita að allt gekk vel í prófunum.......... greinilega verið enn meira stress á mér en ég hélt!
Fór svo í "venjulega" skoðun í gær og allt í fínasta fínu, engar hríðir lengur og krílið áfram með hausinn niður! =)
Það er annars hresst og kátt og duglegt að hreyfa sig og halda mér selskap. Matthias er rosa spenntur fyrir kúlunni og fyrir smábörnum, svo við vonum að allt gangi vel! Mér finnst alveg ótrúlegt hvað þetta er farið að styttast!